Leita í fréttum mbl.is

Við erum fangar skipulagsins

Undarlegt hvernig skipulag og skorður sem við sjálf setjum okkur hamla för og hvetja okkur til rangrar rákvarðanatöku.

Hafnfirðingar vildu ekki sameinast Vogum hér um árið.  Hafna svo stækkun álversins,  sem verður til þess að Alcan lýtur á næst ódýrasta kostinn og flytur sig yfir á Keilisnes.

Sem er að sjálfsögðu miklu betri staðsetning allra hluta vegna,  er ekki í byggð en þó innan þéttbýlisseilingar með aðgang að nægu vinnuafli í nálægðinni (Svo er stutt á völlinn þaðan sem vinnuaflið mun sennilega koma...;-)

En.... þá fá Hafnfirðingar ekki útsvarstekjurnar heldur Vogar - sem,  ef þessi tvö sveitarfélög væru eitt,  skipti engu máli og Hafnfirðingum jafnt og Alcan hefði aldrei dottið í hug að leggja til stækkun í Straumsvík.

Alcan hefði einfaldlega byggt stækkunina á Keilisnesi með blessun HafnarVoga og allir verið glaðir.

Annað svona slys er að gerast í Kópavogi.  Hvernig dettur yfirvöldum þar í hug að byggja höfn í Skerjafirðinum,  þegar Reykjavík er að leggja drög að flutningi hafsækinnar starsemi upp í Hvalfjörð. Ef Reykjavík og Kópavogur væru Reykjavogur þá dytti engum í hug að setja höfn í Skerjafjörðinn;  Nú eða grafa Heiðmörkina í sundur til að koma fyrir vatnslögn.  það hlýtur að vera hægt að komast inná kaldavatnslögn annarsstaðar.

Eftir að Keflavík og Njarðvík sameinuðust, ásamt Höfnunum hefur bærinn blómstrað.  Nýbyggingum hefur verið fundinn staður í Innri Njarðvík og iðnaðarstarfsemi í Helguvík. Sem allra hluta vegna er skynsamlegt staðsetningarval.  Ef engin hefði verið sameiningin þá hefðu verið skipulögð íbúðabygging á Berginu eða á Miðnesheiðinni og Njarðvíkingar hefðu sennilega komið Iðnaðinum fyrir í Innri Njarðvík.  Menn hefðu verið bundnir af skipulagseiningum sem engu skiluðu öðru en röngum áherslum.  Í staðinn færist íbúðabyggðin nær höfuðborgarsvæðinu og verður samkeppnisfær við aðrar jaðarbyggðir.

Við búum okkur til okkar eigin hindranir og staðfestum það í vitlausum skipulagseiningum;  Römmum inn hugsanir okkar og lokum augunum.

Ég segi sameinum öll sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu,  nú eða bara öll sveitarfélög landsins.  Lítum hnattrænt á hlutina. 


Rússneska ljósaperan

Hún fann sig best í gluggalausa herberginu,  herberginu sem var einhversskonar blendingur gangs og geymslu.  Gangurinn hafði verið stýfður til að koma fyrir næturgestum,  gestum sem komu utan af landi og áttu ekki í önnur hús að venda og stoppuðu yfirleitt stutt enda vont að dvelja lengi stýfðum gangi. 

Ein óvarin ljósapera hékk úr loftinu, svona rússnesk.  Slökkvarinn var utan við herbergið, fram á upprunalega ganginum.  Þetta gerði það að verkum að heimilisfólkið, í grandaleysi sínu átti það til að kveikja og slökkva í tíma og ótíma – óvart náttúrulega þar sem slökkvarinn við hliðina stjórnaði hinu ljósinu á ganginum.  Oft heyrðist hrópað úr stýfða ganginum um miðja nótt þegar gleymdist að slökkva eftir að óvart var kveikt.

Þó hún ætti herbergi með glugga og slökkvara innan hurðar þá sótti hún í stýfða ganginn.  Sat þar stundum dagparta þegar enginn var heima,  las blaðið og lét sér leiðast.  Eftir því sem tíminn leið vandist heimilisfólkið þessu háttalagi og byrjaði yfirleitt á því að slökkva í stýfða ganginum til að láta hana vita að einhver væri kominn heim.  Þá kallaði hún fram og aftur var kveikt. Svona gekk þetta um langa hríð. 

Ekki var sérstaklega rætt um þessa háttsemi hennar enda ekki vani heimilisfólks að ræða persónuleg mál hvers annars.  Þetta þróaðist líka smátt og smátt án þess að fólkið tæki sérstaklega eftir því.  Þetta gerðist bara,  eins og þegar veturinn læðist að manni í rólegheitum og skammdegið með.  Án þess að nokkur verði þess var þyngist yfir,  birtan lætur undan þangað til að allt í einu er nótt allan daginn.

Það gerðist á slíkum degi, rétt eftir áramótin, jólasnjóinn var tekinn upp í miklum rigningum á milli jóla og nýárs,  allt blautt og þungt,  ekkert til að hjálpa veikburða geislum sólarinnar að lýsa upp myrk hugarskotin.  Umhverfið allt innan sviga,  að bíða, í dvala og vonin fyrir utan,  gleymd og lítil. 

Slökkt var á perunni af rússneska upprunanum og ekkert heyrðist í stýfða ganginum.  Þögnina lagði um íbúðina og fyllti í þau skúmaskot sem myrkrið hafði ekki náð til.  Heimilisfólkið kallaði og  fékk ekkert svar.  Eftir umhugsun ákvað fólkið að banka,  þó það væri í raun andstætt þeirra virðingu fyrir persónulegum rétti hvers og eins til að vera einn með sjálfum sér. 

Ekkert svar. 

Þau slökktu aftur og biðu.  Ekkert hljóð,  vonleysið læddist yfir myrkrið og þögnina og kæfði alla hugsun.Þau gengu frá hurðinni og hristu hausinn,  þetta lagast kannski á morgun,  kannski fór hún í göngutúr eða,  já hún hefur lagt sig og kemur fram á eftir.

Hún kom ekki fram.  Daginn eftir sá heimilisfólkið að búið var að læðast í ísskápinn.  Þau skildu eftir kveikt á morgnanna og það var búið að slökkva seinnipartinn þegar þau komu heim.  Munstur var að verða til.  Þau fóru að skilja eftir mat í ísskápnum og hættu að fikta í slökkvaranum.

Um vorið kom bróðir hennar heim eftir áralanga dvöl í útlöndum,  hafði fengið boð um dvöl hjá aldraðri frænku sem var orðin fótafúin og vantaði hjálp við dagleg störf í skiptum fyrir húsaskjól og tækifæri til að læra útlensku.

Hann kveikti ljósið í stýfða ganginum og kallaði á systur sína.  Ekkert svar.  Hann slökkti og kveikti ótt og títt,  ekkert svar.Hann talaði blíðlega og hvasst,  hátt og lágt – ekkert dugði. Hann kveikti og opnaði hurðina,  ljósið frá ganginum flóði inn í stýfðan enda hans og fyllti myrkt rýmið,  hann sá glerbrot á gólfinu og leit upp. 

Rússneska peran var brotin og perustæðið svart af sóti.

Sólin braust fram á milli grárra skýja og myndaði lítinn og litsterkan regnboga sem virtist eiga sér upptök í drullupollum götunnar.  Sírenuvæl sjúkrabílsins yfirgnæfði fuglasönginn og þeir flugu upp í dauðans ofboði þegar hann nálgaðist og keyrði ofan í baðið þeirra.

Þegar sjúkraflutningamernnirnir báru börurnar út og inn í bílinn stóð heimilisfólkið þögult með hæfilegt bil á milli sín og horfði í gaupnir sér. 

 


Ökumenn 274.938 bíla af 274.953 til fyrirmyndar í síðustu viku

Var að vela fyrir mér hversu miklu máli skiptir hvaða afstöðu maður kýs að hafa.  Hvernig maður velur að sjá hlutina. 

Hvort maður sér hálffullt glas eða hálftómt.

Hvort maður muni vinna eða tapa leiknum - áður en hann hefst.

Fór að hugsa þetta þegar fréttir bárust af breyttri nálgun við mat á örorku.  Þar sem yfirvaldið hefur snúið málinu á haus og talar nú um mat á starfsorku.  í stað þess að einblína á veikleika viðkomandi - örorkuna.  Er fókusinn kominn á styrkleikann. 

Ef maður er metinn 40% öryrki þá leiðir af sjálfu sér að hann getur unnið 60% starf !

Þetta er snilld og dæmi um hversu miklu skiptir að móta sér jákvæða afstöðu til viðfangsefnisins.

Af hverju höldum við t.d. ekki uppá það að á Íslandi sé 98% atvinna.  í stað þess að slá því upp að atvinnuleysi hafi aukist og sé komið í 2%.

Eða að ökumenn 274.945 bíla  af 274.953 óku allsgáðir um helgina !

Eða 998 börn af hverjum 1.000 sem fæðast á Íslandi fæðast heilbrigð og eiga sér bjarta framtíð !

;-)


Lífið og kajakinn

Þegar farið er niður straumá í kajak eru þrjár leiðir færar.

Fara hraðar en áin.  Fara hægar en áin og fara á sama hraða og áin.

Alveg eins og í lífinu sjálfu....

Til að eiga möguleika á að hafa stjórn á hlutunum verður kajak ræðarinn annaðhvort að fara hraðar en áin, eða hægar en áin.  Að fara á sama hraða og áin þýðir að kajak ræðarinn gefur ánni eftir stjórnina.

Sumir hlaupa hraðar í lífinu en umhverfið.  Þeir hafa stjórn á lífi sínu,  taka ákvarðanir útfrá sjálfum sér og eru á undan.  Þeir ná frumkvæðinu og móta samfélag sitt,  koma róti á hlutina...

Kajak ræðarinn sem fer hraðar en áin reynir mikið á sig og er fyrstur niður.  Sér kannski ekki allt útsýnið á leiðinni og verður fljótt þreittur.

Þeir sem fara hraðar eiga hættu á að reka sig á.  kajak ræðarinn gæti t.d. farið fram af fossinum sem hann sá ekki.  Í lífinu sjálfu fara hraðhlaupararnir oft fram úr sér;  fara á hausinn,  eða særa fólkið í kringum sig að óþörfu.

Þeir sem hægar fara,  bremsa sig af og sjá hvernig hinum sem hratt fara reiðir af. 

Kajak ræðarinn sem fer hægar áttar sig á fossinum áður en hann kemur að honum og getur farið í land. Hinir hægu í lífinu setja peningana sína á bók - kaupa ekki hlut í DeCode.  Þeir hægu særast sjaldan en eiga helst á hættu að deyja úr leiðendum.

Hinir sem láta umhverfið ráða för veltast um í straumunum og vita ekki hvort kajakinn snýr fram eða aftur.  Þeir horfa mest á sjónvarpið. 

Hlutfallslega erum við langflest í þessum hóp.


SVÓT greiningu á nemendurna

Var að hlusta á viðtal við Þórólf Þórlindsson í viðtali hjá Speglinum á RÚV.  Þar varð honum tíðrætt um skólakerfið á Íslandi og samanburð á því við kerfin hjá nágrannalöndunum.

Eitt vakti þar sérstaka athygli mína.  Hann sagði,  eitthvað á þá leið að það ætti frekar að einbeita sér að styrkleikum hvers nemanda í stað veikleika.

Þetta er tær snilld.

Í stað þess að fjölga tímum í fögunum sem nemendur eru slakir í á að leggja áherslu á þau fög sem hann,  ja eða hún er sterkur í.

Þetta hefur verið iðkað í stefnumótun fyrirtækja um langa hríð,  svo langa að aðferðin er eiginlega dottin úr tísku.  Spurning hvort hún fær uppreisn æru í skólakerfinu.  Það skyldi þó aldrei vera !

Aðferðin heitir  SVÓT greining. 

SVÓT greining stendur fyrir S = Styrkleika;  V = Veikleika, Ó = Ógnanir og T = Tækifæri.  Leitast er við að greina styrkleika og veikleika fyrirtækisins ásamt að gera sér grein fyrir þeim ógnunum og tækifærum sem umhverfi þess býr yfir.

Spurning hvort við ættum að beita henni á hvern nemenda einu sinni á ári og miða einstaklingsmiðað námið við útkomu úr henni.

Kannski er hægt að aðlaga þessa aðferð - sem hingað til hefur verið notuð við að greina og hjálpa fyrirtækjum að ná meiri árangri,  að þörfum og veruleika barnanna okkar og ekki síst skólakerfisins ?

Hugsið ykkur.  Á hverju ári væri hver einstaklingur greindur,  hans styrkleikar kortlagðir ásamt veikleikunum og í kjölfarið væri námið sniðið að þörfum hans.

Gæti kannski verið snúið í framkvæmd...


Skynsemin og frumkvöðlarnir

Ég hef unnið talsvert með frumkvöðlum og öðrum snillingum sem hafa stofnað og/eða rekið fyrirtæki.  Allt frá smáfyrirtækjum upp í miklu stærri.

Ég hef oft reynt að gera mér grein fyrir hvað það er sem rekur menn áfram til að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi.  Sérstaklega hefur það vafist fyrir mér hvernig sumir geta haldið áfram út í það óendanlega.  Jafnvel eftir að hverjum heilvita skynsömum manni er orðið ljóst að baráttan er töpuð.

Kæruleysi er eitt svar;  Bjartsýni er annað;  óbilandi sjálfstraust er enn annað,  sumir eru með snert að veruleikafyrringu.  Allir eiga þeir það sameiginlegt að sjá ekki endilega alla möguleika fyrir;  þeir eru ekki ginkeyptir fyrir of mikilli áætlanagerð - hefa þetta meira á tilfinningunni.

Ég held að það sé hægt að líkja þessu við fótbolta.  Þegar lagt er upp í sókn er hverjum liðsmanni ekki ljóst hvernig liðið kemur boltanum í mark andstæðingsins.

Þeir vita hinsvegar allir að til þess að eiga séns þarf liðið að vera í sókn - hvernig hún endar kemur svo í ljós.  Er háð mörgum þáttum,  t.d. hvernig andstæðingurinn hagar sér,  í hvernig skapi dómarinn er,  hversu vel eigin liðsmenn eru stemmdir og svo framvegis.

Hinum skynsama manni,  sem hefur ekki þetta frumkvöðlaelement,  hættir til að leggja mesta áherslu á áætlanagerðina og þá á þá þætti sem geta komið í veg fyrir árangur.

Slíkt hugarfar verður til þess að ekki verður farið í sókn fyrr en búið er eða koma í veg fyrir allt sem gæti hindrað.   Svo er lagt af stað í eina sókn sem sker þá úr um hvort mark sé skorað eða ekki og þar með um úrslit leiksins.  Ef hún mistekst er pakkað saman og tjónið lágmarkað - betra að tapa eitt núll en að verða burstaður.

Ef farið er í nógu margar sóknir aukast líkur á marki og það sem er kannski mest um vert;  liðið lærir.

Vinningslýkurnar eru semsagt enn fyrir hendi þótt liðið sé komið undir - næsta sókn getur breytt öllu.

Svona hugsa þeir sem aldrei gefast upp,  jafnvel þegar skattaskuldir eru orðnar þriggja mánaða gamlar og hótanabréfin eu farin að berast.

 


Speki

Ef maður skilar alltaf því sem maður fær lánað,  þá eignast maður aldrei neitt !

Innanlandsflug til Keflavíkur !

Þetta er klárlega vísbending um að hagsmunaaðilum er ekki á móti skapi að flytja innanlandsflugvöllinn frá Vatnsmýrinni suður,  eða vestur öllu heldur til Keflavíkur,  eða Sandgerðis ennþá heldur.

Enda afskaplega umhendis að halda úti tveim flugvöllum með 50 km millibili,  sem í reynd er meira ef tekið er tillit til ferðatíma.

Tvöfölld Reykjanesbraut,  bein tenging Keflavíkur við Akureyri....  þróunin er bara í eina átt.


mbl.is Icelandair flýgur milli Akureyrar og Keflavíkur í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skeggið og gráu hárin

Eins og undanfarna vetur lét ég mér vaxa skegg fyrir jólin. Sérstakan áhuga minn vakti að talsverður hluti skeggsins var orðið grásprengt. Sérstaklega á hökunni og í vöngunum.

Þetta fannst mér töff.

Sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt athugun sérfræðings er ekki eitt einasta grátt hár á höfði mér, að öðru leiti.

Samt er hárið um það bil 17 árum eldra en skeggið.


Framsókn - Afhverju nauðsynlegt afl.

Framsókn er eina aflið sem þarf ekki að burðast með skýra stefnu í öllum málum.  Hin stjórnmálaöflin rembast eins rjúpan við snýkjudýrin,  sem ætla hana lifandi að éta,  við að móta sér skýra og rökræna afstöðu til allra helstu málanna. 

Þetta gera flokkar í aðdraganda kosninga til að mála skýra mynd af sjálfum sér fyrir sljóa kjósendur – sem kjósa að eyða heila-aflinu í eitthvað annað, eða bara gleyma því hvað hver flokkur stendur fyrir á milli kosninga.  

Þetta er einhversskonar sjálfsfróun,  aðgerð sem gefur þeim er hugsar upp stefnuna,  heldur fundi og skrifar hana niður á blað – pantar bæklinga og skipuleggur fundarherferð, einhversskonar hugarró.  Flokknum lýður vel að hafa unnið heimavinnuna. Eins og með sjálfsfróunina þá er þetta ofsa gott á meðan á því stendur,  eftir stendur hinsvegar ekki neitt ;-) 

Allur þessi undirbúningur fyrir kosningar. Þó það sé vitað að viðkomandi mál koma hugsanlega ekki upp á kjörtímabilinu – og ef þau gera það þá eru allar forsendur stefnunar breyttar. 

Svo koma upp fullt af öðrum málum – sem engum datt í huga að móta stefnu um. 

Framsókn eyðir ekki tíma í þessa vitleysu.  Þeir eyða tíma sínum og orku í að ná völdum og halda þeim.  þannig geta þeir tekið afstöðu til málanna – og gert eitthvað í þeim. 

Og það sem meira er – þeir eru ekki bundnir af fyrirfram mótaðri afstöðu byggðri á updiktuðum forsendum saminni fyrir kosningar af sjálfhverfum hugmyndasmiðum í einmannalegum sjálfsfróunarstellingum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

sverrir geirdal
sverrir geirdal

Skrifa nú eiginlega aldrei um ekki neitt og þá sjaldan það gerist þá er það óvart

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband