Leita í fréttum mbl.is

Verðtryggingin

Af hverju vex Íslensku samfélagi ásmegin nú um stundir ?

Er það vegna uppbyggingar álvera og tilheyrandi orkuvera ?

Er það vegna hás afurðaverðs sjávarfangs ? Eða mikils afla ?

Varla, því okkur er fyrst og fremst að vaxa ásmegin í verslun og bankastarfsemi og iðnaði hvers konar,  mest á erlendri grund.  Er það vegna þess að allt í einu spratt upp ofursvöl stétt athafnamanna,  sem eru svo fífldjarfir að gera það sem gengnir fífldjarfir athafnamenn þorðu ekki. 

Kannski vissu þeir bara ekki að þetta var ekki hægt og gerðu það bara... eins og heyrnarlausi froskurin sem náði upp á topp veggjarins eftir að allir hinir heyrandi höfðu gefist upp.  Fyrst og fremst vegna síbylju úrtöluradda þeirra sem á horfðu (þetta á Mamma eftir að segja að sé málið)

Ég held að undirrót vaxtarins og undirliggjandi ástæða áræðni þessara ofursvölu og líka okkar hinna sé í raun ofureinföld.

Verðtryggingin !

Í kerfið er innbyggð víxlverkun,  sem gerir það að verkum að ef launin hækka þá hækkar verð á nauðsynjum sem aftur kalla á launahækkun.  Þetta er mælt með vísitölum, sem saman kallast verðtrygging.  Hversu gáfulegt sem það nú sýnist þá hefur þessi hækkun áhrif á höfuðstól lána þorra Íslendinga - þau hækka !  Sem aftur þrýstir á hækkun húsnæðisverðs - ekki er hægt að selja á verði sem dekkar ekki lánin,  þá er betra að vinna meira og borga lánin.  Hækkun húsnæðisverðs hefur svo sömuleiðis áhrif til hækkunar verðtryggingarinnar -   sem kallar á hækkun launa.... og hringurinn lokast.

Þetta hefur orðið til þess að við erum dugleg.  Við vinnum og vinnum og vinnum.  Við erum líka úrræðagóð og fljót að tileinka okkur allt sem auðveldar okkur að vinna hraðar og meira,  allir eru nettengdir - til að geta unnið heima,  við eigum tvo bíla - svo hægt sé að fara í búð meðan hinn vinnur.

Við erum líka alltaf á tánum. Ætli sé betra að skuldbreyta í Jen.  Ætti ég að auka á yfirdráttinn og kaupa hlutabréf í OZ eða Decode - nú eða í seinni tíð,  í FL eða Straumi - nú eða 365.

Við fylgjumst vel með og dáumst að þeim sem hafa náð landi - eru komnur útúr verðtryggðum húsnæðislánum,  eru bara með sambankalán hjá Barkleys.  Hetjurnar eru þeir sem hlaupa hraðar en Neysluverðsvísitalan.

Næsta útflutningsvara okkar Íslendinga gæti verið verðtryggingin - eða kannski ættum við ekki að segja neinum frá....

Allavega ekki Dönum !

 


Nýsköpun

Var að vela fyrir mér

1998 var Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stofnaður;  Hann fjárfesti og fjárfesti á fyrstu árum sínum án þess að uppskera sem skyldi.

Nú er sjóðurinn eiginlega horfinn af radarnum,  er ekkert í umræðunni og virðist láta fara lítið fyrir sér - sem er miður.

Það er nafnilega þörf fyrir sjóð sem er ekki blindaður af þörf fyrir fáar en stórar fjárfestingar,  eins og stóru einkafjárfestingasjóðirnir.

Árangur Nýsköpunarsjóðs verður ekki einungis metinn í bókhaldi hans sjálfs.  Hann á að vera metinn af fjölbreytni atvinnulífsins og hversu vel gengur að skapa hér vaxtarskilyrði fyrir ný fyrirtæki og þá sérstaklega fyrirtæki sem hafa ekki áður náð hér fótfestu.

Þó það sé svolítið langsótt má færa rök fyrir því að t.d. CCP væri ekki til nema fyrir brautryðjendastarf margra genginna fyrirtækja,  sem sum hver nutu stuðnings sjóðsins.


Góðar eða slæmar fyrirmyndir

Hvort er betra; Að alast upp við slæmar fyrirmyndir eða góðar ?

Að þurfa annaðhvort að reyna að líkjast fyrirmyndinni eða að reyna að gera allt annað en fyrirmyndin ?

Ég er ekki frá því að það sé meira þroskandi, að það taki meira á og skilji meira eftir sig að alast upp við slæmar fyrirmyndir. Fer reyndar svolítið eftir því hvernig maður tekur á málum, hversu vel maður gerir sér grein fyrir að fyrirmyndin er slæm.

Myndi halda að það væri frágangssök að alast upp við slæma fyrirmynd en halda að hún sé góð og reyna því að líkjast henni.... og öfugt. Ef maður er hinsvegar með þetta á hreinu, þ.e. muninn á milli góðrar og slæmrar fyrirmyndar þá er hálfur sigur unninn. Eftir það þarf maður bara að breyta rétt.

Kannski felst galdurinn einmitt í því að greina á milli góðs og ills, óháð fyrirmyndinni. Fyrirmyndir í uppvextinum eru kannski eins og vegvísar, sumir eru misvísandi, aðrir úreltir og enn aðrir bara uppá punt, eru í raun engir vegvísar, meira svona eins og fléttiskilti með keyptum auglýsingum og upplýsingum um veðrið og gang tímans fyrir neðan.

Maður kemst aldrei úr smáíbúðarhverfinu útá flugvöll ef maður fer eftir fléttiskiltunum....


Kalkúnninn djúpsteiktur

Um leið og óska öllum nær og fjær gleðilegs árs og friðar get ég ekki stillt mig um að deila með ykkur áramótamatnum. 

Hann var snilld.

Við djúpsteiktum kalkún í heilu lagi.  Aðferðin er einföld.  Fyrir hvert pund af fugli er steikt í 3 til 3,5 mínútur.  Fuglinn okkar var 5 Kg og tók því 38,5 mínútur m.v. 3,5 mín. á pund (hvert kíló er um 2,2 pund).

Trikkið er að krydda foglinn daginn áður með bragðmiklu kryddi,  sem er þó ekki laufmikið (kalkúnakrydd frá Pottagöldrum er t.d. ekki sérlega hentugt)  Töfrakryddið virkaði hinsvegar eins og.... töfrar. 

Stór pottur er lykilatriði ásamt gasbrennaranum,  hann þarf að vera nokkuð öflugur til að geta haldið hita á olíunni allri allann tímann - líka eftir að kaldur foglurinn er kominn ofaní.

Kvikindið er sem sagt djúpsteikt í stórum potti - ég notaði 4 gallon af jurta og kornolíu,  sem er kynntur með gasbrennara.  Best er að framkvæma gjörninginn í skúrnum eða undir skyggni úti við.  Það kemur svolítil bræla af þessu og hætt er við að olían sullist svolítið....


Svefnminnið

Um leið og hann var búinn að kveikja á flatskjánum,  myndbandstækinu,  DVD spilaranum og öllum afruglurunum ásamt gervihnattamóttakarastjórbúnaðinum kom hann sér fyrir í uppáhalds stólnum sínum,  stólnum sem hann keypti af manni með uppásnúið yfirvaraskegg,  sem var örugglega eigandi antíkbúðarinnar á Hverfisgötunni þar sem billiard búlla var annaðhvort áður eða eftir að antík búðinn flutti.

Hann byrjaði að flétta í rásunum,  yfirleitt tók fyrsta umferð lengstan tíma,  það tók aðeins á að koma dagskrárlið hverrar stöðvar fyrir sífellt stækkandi svefnminninu.  Minninu sem náði að drekka í sig fréttum líðandi stundar, raunverulegum aðstæðum raunverulegs fólks í raunveruleikaþáttum og öðrum hagnýtum fróðleik, án þess að hann væri að beinínis að horfa.  Eftir fyrstu umferðina var hann einga stund að flétta í gegn,  svefnminnið sá til þess.

Hann var enn staddur í fyrstu umferð þegar það byrjar að naga hann samviskubitið.  Væri ekki betra að sinna fólkinu sínu betur,  ætti hann ekki frekar að vera í heimsókn hjá afa gamla á elliheimilinu.  Væri hann ekki betur settur vitandi hvernig ástarmálin gengu fyrir sig hjá kallinum.  Lítandi sér nær; ætti hann ekki frekar að vera að læra með stráknum sínum,  sýna honum stuðning í náminu.  Eða fara með honum á æfingu.  Taka þátt í lífinu í kringum sig.

Í upphafi seinni umferðarinnar slokknaði á þessum hugleiðingum og hann hóf áhorfið.

Ekki bærðu þessar hugrenningar aftur á sér fyrr en kvöldið eftir og þá aftur í fyrstu umferðinni, rétt áður en svefnminnið fylltist...

Á hverju kvöldi,  alltaf...


Að snúa á tímann

Eftir hátíðarnar eru farnar að birtast áður óséðar tölur á vigtinni,  tölur sem hingað til hafa átt sér öruggt heimili í annara manna vigtum.  Ég veit ekki alveg hvort þær eru velkomnar í minni og vona innst inni að þær séu bara líta inn á leið sinni til einhverra annara vigta...

Talandi um heimsóknir á og í vigtina.....

Hitti kunningja minn um daginn,  hann var skælbrosandi nuddandi á sér vembilinn í mikilli vellíðan um leið og hann sýndi mér plássið sem hafði myndast á milli ystu brúnar vembilsins og vestisins - við vorum báðir fínklæddir í jólaveislu.  Ég spurði í forundran hvernig hann hefði farið að þessu.  hann svariði hróðugur..

"Ég færði bara 1. janúar til 1. nóvember og hóf mitt heilsuátak fyrir jól í staðinn fyrir á fyrsta degi nýs árs eins og allir hinir..."

Glottið fór ekki af honum á meðan ég beitti hugarorkunni við að koma háu tölunum í vigtinni minni  í fóstur til annara vigta.  Ef það tækist gæti ég flutt 1. janúar til 1. mars á næsta ári.... eða bara látið 1. janúar hverfa með öllu ...;-)

 


Sjómannaafslátturinn

Í stað þess að afnema sjómannaafsláttinn á að útvíkka hann ! 

Ef ég skil þetta rétt þá var afslátturinn settur á vegna þess að sjómenn voru löngum stundum frá heimili og vinum við vinnu,  þeir unnu erfitt starf sem var þjóðfélaginu mikilvægt og mikils virði. 

Kannski var hluti ástæðunnar sú að útgerðin átti ekki fyrir öllum laununum,  veit það ekki - látum það allavega liggja á milli hluta (skipstjóra og hásetahluta..;-)

Í dag er sprottin fram ný tegund vinnuvíkinga.  Menn og konur sem stunda vinnu sem sömu rök eiga við og við sjómannsstarfið forðum. 

Þetta eru starfsmenn banka og annara stórtækra fjárfestingarfyrirtækja.  Þessir starfsmenn vinna undir miklu álagi,  eru langdvölum erlendis,   fjarri heimili og vinum og vinna starf sem er samfélaginu mikilvægt.

Kynnum Útrásarafsláttinn til sögunnar.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Höfundur

sverrir geirdal
sverrir geirdal

Skrifa nú eiginlega aldrei um ekki neitt og þá sjaldan það gerist þá er það óvart

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband