Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Rússneska ljósaperan

Hún fann sig best í gluggalausa herberginu,  herberginu sem var einhversskonar blendingur gangs og geymslu.  Gangurinn hafði verið stýfður til að koma fyrir næturgestum,  gestum sem komu utan af landi og áttu ekki í önnur hús að venda og stoppuðu yfirleitt stutt enda vont að dvelja lengi stýfðum gangi. 

Ein óvarin ljósapera hékk úr loftinu, svona rússnesk.  Slökkvarinn var utan við herbergið, fram á upprunalega ganginum.  Þetta gerði það að verkum að heimilisfólkið, í grandaleysi sínu átti það til að kveikja og slökkva í tíma og ótíma – óvart náttúrulega þar sem slökkvarinn við hliðina stjórnaði hinu ljósinu á ganginum.  Oft heyrðist hrópað úr stýfða ganginum um miðja nótt þegar gleymdist að slökkva eftir að óvart var kveikt.

Þó hún ætti herbergi með glugga og slökkvara innan hurðar þá sótti hún í stýfða ganginn.  Sat þar stundum dagparta þegar enginn var heima,  las blaðið og lét sér leiðast.  Eftir því sem tíminn leið vandist heimilisfólkið þessu háttalagi og byrjaði yfirleitt á því að slökkva í stýfða ganginum til að láta hana vita að einhver væri kominn heim.  Þá kallaði hún fram og aftur var kveikt. Svona gekk þetta um langa hríð. 

Ekki var sérstaklega rætt um þessa háttsemi hennar enda ekki vani heimilisfólks að ræða persónuleg mál hvers annars.  Þetta þróaðist líka smátt og smátt án þess að fólkið tæki sérstaklega eftir því.  Þetta gerðist bara,  eins og þegar veturinn læðist að manni í rólegheitum og skammdegið með.  Án þess að nokkur verði þess var þyngist yfir,  birtan lætur undan þangað til að allt í einu er nótt allan daginn.

Það gerðist á slíkum degi, rétt eftir áramótin, jólasnjóinn var tekinn upp í miklum rigningum á milli jóla og nýárs,  allt blautt og þungt,  ekkert til að hjálpa veikburða geislum sólarinnar að lýsa upp myrk hugarskotin.  Umhverfið allt innan sviga,  að bíða, í dvala og vonin fyrir utan,  gleymd og lítil. 

Slökkt var á perunni af rússneska upprunanum og ekkert heyrðist í stýfða ganginum.  Þögnina lagði um íbúðina og fyllti í þau skúmaskot sem myrkrið hafði ekki náð til.  Heimilisfólkið kallaði og  fékk ekkert svar.  Eftir umhugsun ákvað fólkið að banka,  þó það væri í raun andstætt þeirra virðingu fyrir persónulegum rétti hvers og eins til að vera einn með sjálfum sér. 

Ekkert svar. 

Þau slökktu aftur og biðu.  Ekkert hljóð,  vonleysið læddist yfir myrkrið og þögnina og kæfði alla hugsun.Þau gengu frá hurðinni og hristu hausinn,  þetta lagast kannski á morgun,  kannski fór hún í göngutúr eða,  já hún hefur lagt sig og kemur fram á eftir.

Hún kom ekki fram.  Daginn eftir sá heimilisfólkið að búið var að læðast í ísskápinn.  Þau skildu eftir kveikt á morgnanna og það var búið að slökkva seinnipartinn þegar þau komu heim.  Munstur var að verða til.  Þau fóru að skilja eftir mat í ísskápnum og hættu að fikta í slökkvaranum.

Um vorið kom bróðir hennar heim eftir áralanga dvöl í útlöndum,  hafði fengið boð um dvöl hjá aldraðri frænku sem var orðin fótafúin og vantaði hjálp við dagleg störf í skiptum fyrir húsaskjól og tækifæri til að læra útlensku.

Hann kveikti ljósið í stýfða ganginum og kallaði á systur sína.  Ekkert svar.  Hann slökkti og kveikti ótt og títt,  ekkert svar.Hann talaði blíðlega og hvasst,  hátt og lágt – ekkert dugði. Hann kveikti og opnaði hurðina,  ljósið frá ganginum flóði inn í stýfðan enda hans og fyllti myrkt rýmið,  hann sá glerbrot á gólfinu og leit upp. 

Rússneska peran var brotin og perustæðið svart af sóti.

Sólin braust fram á milli grárra skýja og myndaði lítinn og litsterkan regnboga sem virtist eiga sér upptök í drullupollum götunnar.  Sírenuvæl sjúkrabílsins yfirgnæfði fuglasönginn og þeir flugu upp í dauðans ofboði þegar hann nálgaðist og keyrði ofan í baðið þeirra.

Þegar sjúkraflutningamernnirnir báru börurnar út og inn í bílinn stóð heimilisfólkið þögult með hæfilegt bil á milli sín og horfði í gaupnir sér. 

 


Ökumenn 274.938 bíla af 274.953 til fyrirmyndar í síðustu viku

Var að vela fyrir mér hversu miklu máli skiptir hvaða afstöðu maður kýs að hafa.  Hvernig maður velur að sjá hlutina. 

Hvort maður sér hálffullt glas eða hálftómt.

Hvort maður muni vinna eða tapa leiknum - áður en hann hefst.

Fór að hugsa þetta þegar fréttir bárust af breyttri nálgun við mat á örorku.  Þar sem yfirvaldið hefur snúið málinu á haus og talar nú um mat á starfsorku.  í stað þess að einblína á veikleika viðkomandi - örorkuna.  Er fókusinn kominn á styrkleikann. 

Ef maður er metinn 40% öryrki þá leiðir af sjálfu sér að hann getur unnið 60% starf !

Þetta er snilld og dæmi um hversu miklu skiptir að móta sér jákvæða afstöðu til viðfangsefnisins.

Af hverju höldum við t.d. ekki uppá það að á Íslandi sé 98% atvinna.  í stað þess að slá því upp að atvinnuleysi hafi aukist og sé komið í 2%.

Eða að ökumenn 274.945 bíla  af 274.953 óku allsgáðir um helgina !

Eða 998 börn af hverjum 1.000 sem fæðast á Íslandi fæðast heilbrigð og eiga sér bjarta framtíð !

;-)


Höfundur

sverrir geirdal
sverrir geirdal

Skrifa nú eiginlega aldrei um ekki neitt og þá sjaldan það gerist þá er það óvart

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband