Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Rússneska ljósaperan

Hún fann sig best í gluggalausa herberginu,  herberginu sem var einhversskonar blendingur gangs og geymslu.  Gangurinn hafði verið stýfður til að koma fyrir næturgestum,  gestum sem komu utan af landi og áttu ekki í önnur hús að venda og stoppuðu yfirleitt stutt enda vont að dvelja lengi stýfðum gangi. 

Ein óvarin ljósapera hékk úr loftinu, svona rússnesk.  Slökkvarinn var utan við herbergið, fram á upprunalega ganginum.  Þetta gerði það að verkum að heimilisfólkið, í grandaleysi sínu átti það til að kveikja og slökkva í tíma og ótíma – óvart náttúrulega þar sem slökkvarinn við hliðina stjórnaði hinu ljósinu á ganginum.  Oft heyrðist hrópað úr stýfða ganginum um miðja nótt þegar gleymdist að slökkva eftir að óvart var kveikt.

Þó hún ætti herbergi með glugga og slökkvara innan hurðar þá sótti hún í stýfða ganginn.  Sat þar stundum dagparta þegar enginn var heima,  las blaðið og lét sér leiðast.  Eftir því sem tíminn leið vandist heimilisfólkið þessu háttalagi og byrjaði yfirleitt á því að slökkva í stýfða ganginum til að láta hana vita að einhver væri kominn heim.  Þá kallaði hún fram og aftur var kveikt. Svona gekk þetta um langa hríð. 

Ekki var sérstaklega rætt um þessa háttsemi hennar enda ekki vani heimilisfólks að ræða persónuleg mál hvers annars.  Þetta þróaðist líka smátt og smátt án þess að fólkið tæki sérstaklega eftir því.  Þetta gerðist bara,  eins og þegar veturinn læðist að manni í rólegheitum og skammdegið með.  Án þess að nokkur verði þess var þyngist yfir,  birtan lætur undan þangað til að allt í einu er nótt allan daginn.

Það gerðist á slíkum degi, rétt eftir áramótin, jólasnjóinn var tekinn upp í miklum rigningum á milli jóla og nýárs,  allt blautt og þungt,  ekkert til að hjálpa veikburða geislum sólarinnar að lýsa upp myrk hugarskotin.  Umhverfið allt innan sviga,  að bíða, í dvala og vonin fyrir utan,  gleymd og lítil. 

Slökkt var á perunni af rússneska upprunanum og ekkert heyrðist í stýfða ganginum.  Þögnina lagði um íbúðina og fyllti í þau skúmaskot sem myrkrið hafði ekki náð til.  Heimilisfólkið kallaði og  fékk ekkert svar.  Eftir umhugsun ákvað fólkið að banka,  þó það væri í raun andstætt þeirra virðingu fyrir persónulegum rétti hvers og eins til að vera einn með sjálfum sér. 

Ekkert svar. 

Þau slökktu aftur og biðu.  Ekkert hljóð,  vonleysið læddist yfir myrkrið og þögnina og kæfði alla hugsun.Þau gengu frá hurðinni og hristu hausinn,  þetta lagast kannski á morgun,  kannski fór hún í göngutúr eða,  já hún hefur lagt sig og kemur fram á eftir.

Hún kom ekki fram.  Daginn eftir sá heimilisfólkið að búið var að læðast í ísskápinn.  Þau skildu eftir kveikt á morgnanna og það var búið að slökkva seinnipartinn þegar þau komu heim.  Munstur var að verða til.  Þau fóru að skilja eftir mat í ísskápnum og hættu að fikta í slökkvaranum.

Um vorið kom bróðir hennar heim eftir áralanga dvöl í útlöndum,  hafði fengið boð um dvöl hjá aldraðri frænku sem var orðin fótafúin og vantaði hjálp við dagleg störf í skiptum fyrir húsaskjól og tækifæri til að læra útlensku.

Hann kveikti ljósið í stýfða ganginum og kallaði á systur sína.  Ekkert svar.  Hann slökkti og kveikti ótt og títt,  ekkert svar.Hann talaði blíðlega og hvasst,  hátt og lágt – ekkert dugði. Hann kveikti og opnaði hurðina,  ljósið frá ganginum flóði inn í stýfðan enda hans og fyllti myrkt rýmið,  hann sá glerbrot á gólfinu og leit upp. 

Rússneska peran var brotin og perustæðið svart af sóti.

Sólin braust fram á milli grárra skýja og myndaði lítinn og litsterkan regnboga sem virtist eiga sér upptök í drullupollum götunnar.  Sírenuvæl sjúkrabílsins yfirgnæfði fuglasönginn og þeir flugu upp í dauðans ofboði þegar hann nálgaðist og keyrði ofan í baðið þeirra.

Þegar sjúkraflutningamernnirnir báru börurnar út og inn í bílinn stóð heimilisfólkið þögult með hæfilegt bil á milli sín og horfði í gaupnir sér. 

 


Ökumenn 274.938 bíla af 274.953 til fyrirmyndar í síðustu viku

Var að vela fyrir mér hversu miklu máli skiptir hvaða afstöðu maður kýs að hafa.  Hvernig maður velur að sjá hlutina. 

Hvort maður sér hálffullt glas eða hálftómt.

Hvort maður muni vinna eða tapa leiknum - áður en hann hefst.

Fór að hugsa þetta þegar fréttir bárust af breyttri nálgun við mat á örorku.  Þar sem yfirvaldið hefur snúið málinu á haus og talar nú um mat á starfsorku.  í stað þess að einblína á veikleika viðkomandi - örorkuna.  Er fókusinn kominn á styrkleikann. 

Ef maður er metinn 40% öryrki þá leiðir af sjálfu sér að hann getur unnið 60% starf !

Þetta er snilld og dæmi um hversu miklu skiptir að móta sér jákvæða afstöðu til viðfangsefnisins.

Af hverju höldum við t.d. ekki uppá það að á Íslandi sé 98% atvinna.  í stað þess að slá því upp að atvinnuleysi hafi aukist og sé komið í 2%.

Eða að ökumenn 274.945 bíla  af 274.953 óku allsgáðir um helgina !

Eða 998 börn af hverjum 1.000 sem fæðast á Íslandi fæðast heilbrigð og eiga sér bjarta framtíð !

;-)


Lífið og kajakinn

Þegar farið er niður straumá í kajak eru þrjár leiðir færar.

Fara hraðar en áin.  Fara hægar en áin og fara á sama hraða og áin.

Alveg eins og í lífinu sjálfu....

Til að eiga möguleika á að hafa stjórn á hlutunum verður kajak ræðarinn annaðhvort að fara hraðar en áin, eða hægar en áin.  Að fara á sama hraða og áin þýðir að kajak ræðarinn gefur ánni eftir stjórnina.

Sumir hlaupa hraðar í lífinu en umhverfið.  Þeir hafa stjórn á lífi sínu,  taka ákvarðanir útfrá sjálfum sér og eru á undan.  Þeir ná frumkvæðinu og móta samfélag sitt,  koma róti á hlutina...

Kajak ræðarinn sem fer hraðar en áin reynir mikið á sig og er fyrstur niður.  Sér kannski ekki allt útsýnið á leiðinni og verður fljótt þreittur.

Þeir sem fara hraðar eiga hættu á að reka sig á.  kajak ræðarinn gæti t.d. farið fram af fossinum sem hann sá ekki.  Í lífinu sjálfu fara hraðhlaupararnir oft fram úr sér;  fara á hausinn,  eða særa fólkið í kringum sig að óþörfu.

Þeir sem hægar fara,  bremsa sig af og sjá hvernig hinum sem hratt fara reiðir af. 

Kajak ræðarinn sem fer hægar áttar sig á fossinum áður en hann kemur að honum og getur farið í land. Hinir hægu í lífinu setja peningana sína á bók - kaupa ekki hlut í DeCode.  Þeir hægu særast sjaldan en eiga helst á hættu að deyja úr leiðendum.

Hinir sem láta umhverfið ráða för veltast um í straumunum og vita ekki hvort kajakinn snýr fram eða aftur.  Þeir horfa mest á sjónvarpið. 

Hlutfallslega erum við langflest í þessum hóp.


Skynsemin og frumkvöðlarnir

Ég hef unnið talsvert með frumkvöðlum og öðrum snillingum sem hafa stofnað og/eða rekið fyrirtæki.  Allt frá smáfyrirtækjum upp í miklu stærri.

Ég hef oft reynt að gera mér grein fyrir hvað það er sem rekur menn áfram til að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi.  Sérstaklega hefur það vafist fyrir mér hvernig sumir geta haldið áfram út í það óendanlega.  Jafnvel eftir að hverjum heilvita skynsömum manni er orðið ljóst að baráttan er töpuð.

Kæruleysi er eitt svar;  Bjartsýni er annað;  óbilandi sjálfstraust er enn annað,  sumir eru með snert að veruleikafyrringu.  Allir eiga þeir það sameiginlegt að sjá ekki endilega alla möguleika fyrir;  þeir eru ekki ginkeyptir fyrir of mikilli áætlanagerð - hefa þetta meira á tilfinningunni.

Ég held að það sé hægt að líkja þessu við fótbolta.  Þegar lagt er upp í sókn er hverjum liðsmanni ekki ljóst hvernig liðið kemur boltanum í mark andstæðingsins.

Þeir vita hinsvegar allir að til þess að eiga séns þarf liðið að vera í sókn - hvernig hún endar kemur svo í ljós.  Er háð mörgum þáttum,  t.d. hvernig andstæðingurinn hagar sér,  í hvernig skapi dómarinn er,  hversu vel eigin liðsmenn eru stemmdir og svo framvegis.

Hinum skynsama manni,  sem hefur ekki þetta frumkvöðlaelement,  hættir til að leggja mesta áherslu á áætlanagerðina og þá á þá þætti sem geta komið í veg fyrir árangur.

Slíkt hugarfar verður til þess að ekki verður farið í sókn fyrr en búið er eða koma í veg fyrir allt sem gæti hindrað.   Svo er lagt af stað í eina sókn sem sker þá úr um hvort mark sé skorað eða ekki og þar með um úrslit leiksins.  Ef hún mistekst er pakkað saman og tjónið lágmarkað - betra að tapa eitt núll en að verða burstaður.

Ef farið er í nógu margar sóknir aukast líkur á marki og það sem er kannski mest um vert;  liðið lærir.

Vinningslýkurnar eru semsagt enn fyrir hendi þótt liðið sé komið undir - næsta sókn getur breytt öllu.

Svona hugsa þeir sem aldrei gefast upp,  jafnvel þegar skattaskuldir eru orðnar þriggja mánaða gamlar og hótanabréfin eu farin að berast.

 


Speki

Ef maður skilar alltaf því sem maður fær lánað,  þá eignast maður aldrei neitt !

Skeggið og gráu hárin

Eins og undanfarna vetur lét ég mér vaxa skegg fyrir jólin. Sérstakan áhuga minn vakti að talsverður hluti skeggsins var orðið grásprengt. Sérstaklega á hökunni og í vöngunum.

Þetta fannst mér töff.

Sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt athugun sérfræðings er ekki eitt einasta grátt hár á höfði mér, að öðru leiti.

Samt er hárið um það bil 17 árum eldra en skeggið.


Verðtryggingin

Af hverju vex Íslensku samfélagi ásmegin nú um stundir ?

Er það vegna uppbyggingar álvera og tilheyrandi orkuvera ?

Er það vegna hás afurðaverðs sjávarfangs ? Eða mikils afla ?

Varla, því okkur er fyrst og fremst að vaxa ásmegin í verslun og bankastarfsemi og iðnaði hvers konar,  mest á erlendri grund.  Er það vegna þess að allt í einu spratt upp ofursvöl stétt athafnamanna,  sem eru svo fífldjarfir að gera það sem gengnir fífldjarfir athafnamenn þorðu ekki. 

Kannski vissu þeir bara ekki að þetta var ekki hægt og gerðu það bara... eins og heyrnarlausi froskurin sem náði upp á topp veggjarins eftir að allir hinir heyrandi höfðu gefist upp.  Fyrst og fremst vegna síbylju úrtöluradda þeirra sem á horfðu (þetta á Mamma eftir að segja að sé málið)

Ég held að undirrót vaxtarins og undirliggjandi ástæða áræðni þessara ofursvölu og líka okkar hinna sé í raun ofureinföld.

Verðtryggingin !

Í kerfið er innbyggð víxlverkun,  sem gerir það að verkum að ef launin hækka þá hækkar verð á nauðsynjum sem aftur kalla á launahækkun.  Þetta er mælt með vísitölum, sem saman kallast verðtrygging.  Hversu gáfulegt sem það nú sýnist þá hefur þessi hækkun áhrif á höfuðstól lána þorra Íslendinga - þau hækka !  Sem aftur þrýstir á hækkun húsnæðisverðs - ekki er hægt að selja á verði sem dekkar ekki lánin,  þá er betra að vinna meira og borga lánin.  Hækkun húsnæðisverðs hefur svo sömuleiðis áhrif til hækkunar verðtryggingarinnar -   sem kallar á hækkun launa.... og hringurinn lokast.

Þetta hefur orðið til þess að við erum dugleg.  Við vinnum og vinnum og vinnum.  Við erum líka úrræðagóð og fljót að tileinka okkur allt sem auðveldar okkur að vinna hraðar og meira,  allir eru nettengdir - til að geta unnið heima,  við eigum tvo bíla - svo hægt sé að fara í búð meðan hinn vinnur.

Við erum líka alltaf á tánum. Ætli sé betra að skuldbreyta í Jen.  Ætti ég að auka á yfirdráttinn og kaupa hlutabréf í OZ eða Decode - nú eða í seinni tíð,  í FL eða Straumi - nú eða 365.

Við fylgjumst vel með og dáumst að þeim sem hafa náð landi - eru komnur útúr verðtryggðum húsnæðislánum,  eru bara með sambankalán hjá Barkleys.  Hetjurnar eru þeir sem hlaupa hraðar en Neysluverðsvísitalan.

Næsta útflutningsvara okkar Íslendinga gæti verið verðtryggingin - eða kannski ættum við ekki að segja neinum frá....

Allavega ekki Dönum !

 


Góðar eða slæmar fyrirmyndir

Hvort er betra; Að alast upp við slæmar fyrirmyndir eða góðar ?

Að þurfa annaðhvort að reyna að líkjast fyrirmyndinni eða að reyna að gera allt annað en fyrirmyndin ?

Ég er ekki frá því að það sé meira þroskandi, að það taki meira á og skilji meira eftir sig að alast upp við slæmar fyrirmyndir. Fer reyndar svolítið eftir því hvernig maður tekur á málum, hversu vel maður gerir sér grein fyrir að fyrirmyndin er slæm.

Myndi halda að það væri frágangssök að alast upp við slæma fyrirmynd en halda að hún sé góð og reyna því að líkjast henni.... og öfugt. Ef maður er hinsvegar með þetta á hreinu, þ.e. muninn á milli góðrar og slæmrar fyrirmyndar þá er hálfur sigur unninn. Eftir það þarf maður bara að breyta rétt.

Kannski felst galdurinn einmitt í því að greina á milli góðs og ills, óháð fyrirmyndinni. Fyrirmyndir í uppvextinum eru kannski eins og vegvísar, sumir eru misvísandi, aðrir úreltir og enn aðrir bara uppá punt, eru í raun engir vegvísar, meira svona eins og fléttiskilti með keyptum auglýsingum og upplýsingum um veðrið og gang tímans fyrir neðan.

Maður kemst aldrei úr smáíbúðarhverfinu útá flugvöll ef maður fer eftir fléttiskiltunum....


Svefnminnið

Um leið og hann var búinn að kveikja á flatskjánum,  myndbandstækinu,  DVD spilaranum og öllum afruglurunum ásamt gervihnattamóttakarastjórbúnaðinum kom hann sér fyrir í uppáhalds stólnum sínum,  stólnum sem hann keypti af manni með uppásnúið yfirvaraskegg,  sem var örugglega eigandi antíkbúðarinnar á Hverfisgötunni þar sem billiard búlla var annaðhvort áður eða eftir að antík búðinn flutti.

Hann byrjaði að flétta í rásunum,  yfirleitt tók fyrsta umferð lengstan tíma,  það tók aðeins á að koma dagskrárlið hverrar stöðvar fyrir sífellt stækkandi svefnminninu.  Minninu sem náði að drekka í sig fréttum líðandi stundar, raunverulegum aðstæðum raunverulegs fólks í raunveruleikaþáttum og öðrum hagnýtum fróðleik, án þess að hann væri að beinínis að horfa.  Eftir fyrstu umferðina var hann einga stund að flétta í gegn,  svefnminnið sá til þess.

Hann var enn staddur í fyrstu umferð þegar það byrjar að naga hann samviskubitið.  Væri ekki betra að sinna fólkinu sínu betur,  ætti hann ekki frekar að vera í heimsókn hjá afa gamla á elliheimilinu.  Væri hann ekki betur settur vitandi hvernig ástarmálin gengu fyrir sig hjá kallinum.  Lítandi sér nær; ætti hann ekki frekar að vera að læra með stráknum sínum,  sýna honum stuðning í náminu.  Eða fara með honum á æfingu.  Taka þátt í lífinu í kringum sig.

Í upphafi seinni umferðarinnar slokknaði á þessum hugleiðingum og hann hóf áhorfið.

Ekki bærðu þessar hugrenningar aftur á sér fyrr en kvöldið eftir og þá aftur í fyrstu umferðinni, rétt áður en svefnminnið fylltist...

Á hverju kvöldi,  alltaf...


Höfundur

sverrir geirdal
sverrir geirdal

Skrifa nú eiginlega aldrei um ekki neitt og þá sjaldan það gerist þá er það óvart

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband