Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Lífið og kajakinn

Þegar farið er niður straumá í kajak eru þrjár leiðir færar.

Fara hraðar en áin.  Fara hægar en áin og fara á sama hraða og áin.

Alveg eins og í lífinu sjálfu....

Til að eiga möguleika á að hafa stjórn á hlutunum verður kajak ræðarinn annaðhvort að fara hraðar en áin, eða hægar en áin.  Að fara á sama hraða og áin þýðir að kajak ræðarinn gefur ánni eftir stjórnina.

Sumir hlaupa hraðar í lífinu en umhverfið.  Þeir hafa stjórn á lífi sínu,  taka ákvarðanir útfrá sjálfum sér og eru á undan.  Þeir ná frumkvæðinu og móta samfélag sitt,  koma róti á hlutina...

Kajak ræðarinn sem fer hraðar en áin reynir mikið á sig og er fyrstur niður.  Sér kannski ekki allt útsýnið á leiðinni og verður fljótt þreittur.

Þeir sem fara hraðar eiga hættu á að reka sig á.  kajak ræðarinn gæti t.d. farið fram af fossinum sem hann sá ekki.  Í lífinu sjálfu fara hraðhlaupararnir oft fram úr sér;  fara á hausinn,  eða særa fólkið í kringum sig að óþörfu.

Þeir sem hægar fara,  bremsa sig af og sjá hvernig hinum sem hratt fara reiðir af. 

Kajak ræðarinn sem fer hægar áttar sig á fossinum áður en hann kemur að honum og getur farið í land. Hinir hægu í lífinu setja peningana sína á bók - kaupa ekki hlut í DeCode.  Þeir hægu særast sjaldan en eiga helst á hættu að deyja úr leiðendum.

Hinir sem láta umhverfið ráða för veltast um í straumunum og vita ekki hvort kajakinn snýr fram eða aftur.  Þeir horfa mest á sjónvarpið. 

Hlutfallslega erum við langflest í þessum hóp.


SVÓT greiningu á nemendurna

Var að hlusta á viðtal við Þórólf Þórlindsson í viðtali hjá Speglinum á RÚV.  Þar varð honum tíðrætt um skólakerfið á Íslandi og samanburð á því við kerfin hjá nágrannalöndunum.

Eitt vakti þar sérstaka athygli mína.  Hann sagði,  eitthvað á þá leið að það ætti frekar að einbeita sér að styrkleikum hvers nemanda í stað veikleika.

Þetta er tær snilld.

Í stað þess að fjölga tímum í fögunum sem nemendur eru slakir í á að leggja áherslu á þau fög sem hann,  ja eða hún er sterkur í.

Þetta hefur verið iðkað í stefnumótun fyrirtækja um langa hríð,  svo langa að aðferðin er eiginlega dottin úr tísku.  Spurning hvort hún fær uppreisn æru í skólakerfinu.  Það skyldi þó aldrei vera !

Aðferðin heitir  SVÓT greining. 

SVÓT greining stendur fyrir S = Styrkleika;  V = Veikleika, Ó = Ógnanir og T = Tækifæri.  Leitast er við að greina styrkleika og veikleika fyrirtækisins ásamt að gera sér grein fyrir þeim ógnunum og tækifærum sem umhverfi þess býr yfir.

Spurning hvort við ættum að beita henni á hvern nemenda einu sinni á ári og miða einstaklingsmiðað námið við útkomu úr henni.

Kannski er hægt að aðlaga þessa aðferð - sem hingað til hefur verið notuð við að greina og hjálpa fyrirtækjum að ná meiri árangri,  að þörfum og veruleika barnanna okkar og ekki síst skólakerfisins ?

Hugsið ykkur.  Á hverju ári væri hver einstaklingur greindur,  hans styrkleikar kortlagðir ásamt veikleikunum og í kjölfarið væri námið sniðið að þörfum hans.

Gæti kannski verið snúið í framkvæmd...


Skynsemin og frumkvöðlarnir

Ég hef unnið talsvert með frumkvöðlum og öðrum snillingum sem hafa stofnað og/eða rekið fyrirtæki.  Allt frá smáfyrirtækjum upp í miklu stærri.

Ég hef oft reynt að gera mér grein fyrir hvað það er sem rekur menn áfram til að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi.  Sérstaklega hefur það vafist fyrir mér hvernig sumir geta haldið áfram út í það óendanlega.  Jafnvel eftir að hverjum heilvita skynsömum manni er orðið ljóst að baráttan er töpuð.

Kæruleysi er eitt svar;  Bjartsýni er annað;  óbilandi sjálfstraust er enn annað,  sumir eru með snert að veruleikafyrringu.  Allir eiga þeir það sameiginlegt að sjá ekki endilega alla möguleika fyrir;  þeir eru ekki ginkeyptir fyrir of mikilli áætlanagerð - hefa þetta meira á tilfinningunni.

Ég held að það sé hægt að líkja þessu við fótbolta.  Þegar lagt er upp í sókn er hverjum liðsmanni ekki ljóst hvernig liðið kemur boltanum í mark andstæðingsins.

Þeir vita hinsvegar allir að til þess að eiga séns þarf liðið að vera í sókn - hvernig hún endar kemur svo í ljós.  Er háð mörgum þáttum,  t.d. hvernig andstæðingurinn hagar sér,  í hvernig skapi dómarinn er,  hversu vel eigin liðsmenn eru stemmdir og svo framvegis.

Hinum skynsama manni,  sem hefur ekki þetta frumkvöðlaelement,  hættir til að leggja mesta áherslu á áætlanagerðina og þá á þá þætti sem geta komið í veg fyrir árangur.

Slíkt hugarfar verður til þess að ekki verður farið í sókn fyrr en búið er eða koma í veg fyrir allt sem gæti hindrað.   Svo er lagt af stað í eina sókn sem sker þá úr um hvort mark sé skorað eða ekki og þar með um úrslit leiksins.  Ef hún mistekst er pakkað saman og tjónið lágmarkað - betra að tapa eitt núll en að verða burstaður.

Ef farið er í nógu margar sóknir aukast líkur á marki og það sem er kannski mest um vert;  liðið lærir.

Vinningslýkurnar eru semsagt enn fyrir hendi þótt liðið sé komið undir - næsta sókn getur breytt öllu.

Svona hugsa þeir sem aldrei gefast upp,  jafnvel þegar skattaskuldir eru orðnar þriggja mánaða gamlar og hótanabréfin eu farin að berast.

 


Höfundur

sverrir geirdal
sverrir geirdal

Skrifa nú eiginlega aldrei um ekki neitt og þá sjaldan það gerist þá er það óvart

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband