Færsluflokkur: Ferðalög
25.6.2007 | 00:01
Umferð í 3d í Grímsey
Var í Grímsey á lengsta degi ársins. Hugmyndin að upplifa miðnætursólina við heimskautsbaug. Sólin tók ekki vel í þá hugmynd og faldi sig í skjóli lágra skýja og norðanáttar.
Við skoðuðum fuglalífið og sig í berg, sigldum, borðuðum, gengum og hlustuðum á fróða og söguglaða menn halda okkur andagtugum í kirkjunni, hákarlaskúrnum og fjörunni. Veltum við steinum og leituðum upprunans í félagskaps brottfluttra og forvitinna.
Það er sterk upplifun að vera í hóp samþenkjandi fólks að leita, fræðast og kynnast einhverju sem það þráir, hver á sinn hátt og hefur hugsað um og velt fyrir sér um langa hríð. Hópurinn verður svo sterkur í upplifuninni. Ekki skemmir fyrir að vera undir handleiðslu Eyjajarlsins Helga Dan og sveitastjórans Bjarna.
Lokaatriðið var einmitt bjargsig Bjarna, sem verður 77 ára á laugardaginn. Hann seig í bjargið og við pílagrímarnir horfðum á með öndina í hálsinum.
Á meðan á undirbúningi sigsins stóð sat ég í Lundahótelinu efst á bakkanum og reyndi að komast hjá því að adetta niður. Fór að fylgjast með fluglagi og umferð í bjarginu. Ég kann nú illa að greina fuglategundir, ég er þó nokkuð viss um að þarna voru Lundar, Mávar, Fýlar og Langvíur (veit þó ekki endilega hver var hvað...;-)
Fuglarnir flugu og flugu, lentu á sillum og tóku flugið, sumir svifu á meðan aðrir þurftu að blaka sýnum stuttu vængjum ótt og títt í tíma og ótíma.
Eðli máls samkvæmt flugu fuglarnir líka mishratt og í þrívídd - fóru ekki eftir neinum vegum sem ekki voru, engin umferðaskilti voru þarna í berginu eða hinu frjálsa lofti við heimskautsbaug. Ekki varð ég heldur var við mikil samskipti á milli fuglanna - sá engan með heyrnartól og enginn var flugturninn eða umferðaljósinn.
Samt varð enginn árekstur - aldrei flogið aftaná eða svínað...
Ég var náttúrulega bara dagpart á staðnum og mínar athuganir geta varla talist tölfræðilega marktækar...
Hvernig stendur á því að við getum ekki hreyft okkur um í tvívídd dagpart án árekstra á meðan ómenntaðir, mállausir og próflausir foglar fljúga í þrívídd alla daga án þess nokkurntímann að lenda í umferðaróhappi...
Kannski er það bara eyjan góða sem hefur þessi áhrif - held að umferðaróhöpp séu fátíð í Grímsey - þó að þar séu örugglega á þriðja tug bíla og sennilega annað eins af öðrum fararskjótum (fyrir utan merina Mö ... ) og bara eitt umferðarskilti...
...þar sem vegfarendum er bent á að ekki meigi hjóla á bryggjunni...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2007 | 14:19
Mótorhjól á Reykjanesbraut hinni nýju
Ég tók rúntinn á Skugganum í fyrrakvöld. Veðrið var gott og göturnar auðar. Skugginn var upp á sitt allra besta nýþrifinn og viljugur (Skugginn er Honda Shadow 1100...)
Ég ákvað að kíkja útí Hafnarfjörð - í Vallarhverfið til að fylgjast með framkvæmdum við innréttingu á einbýlishúsi nokkru - sem á eftir að verða geggjað.
Efri leiðin út í fjörð, þ.e. Reykjanesbrautin er nú tvöfölld, sem er væntanlega gert til að liðka fyrir umferð ásamt að gera vegarspottann öruggari.
Fyrra markmiðið næst örugglega en það síðar alls ekki eins og brautin er núna frágengin. Það er stórhættulegt að keyra um nýju akreinina suður til Hafnarfjarðar á mótorhjóli. Allt fullt af fræstum vegmerkingum, malbiksbrúnum og holum.
Þetta þarf að laga strax - áður en einhver á tvíhjóla tryllitæki verður sér á fjörtjóni !
Ég er að segja það !
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)